Æla

Það besta við tónlistarhátíðir eru böndin sem maður bjóst ekki við að uppgötva. Aðal hæpið fyrir Iceland Airwaves 2004 var t.d. The Bravery, sem áttu víst að verða næsta vinsælasta rokkgrúppa í heimi. Enginn man eftir tónleikum þeirra (eða þeim sjálfum, ef út í það er farið) í dag, en alveg óþekkt breskt band sem hét Hot Chip stálu senunni það árið. Ég var heldur aldrei búinn að heyra í Múgison þegar ég rambaði inn á tónleika með honum á Sónar í Barcelona árið 2004, og giggið hans og settið hennar Ms. Kittin (sem átti ekkert að spila á hátíðinni) gerðu mig að instant aðdáendum þeirra beggja. Eins manns hljómsveitar pælingin hans var alveg mögnuð og hvernig hann notaði tölvuna á tónleikum sínum var eitthvað sem ég hafði aldrei séð á tónleikum, og þetta var íslendingur (og vestfirðingur!) í þokkabót. Ms. Kittin hljóp í skarðið fyrir ofurplötusnúðinn Carl Cox og spilaði DJ sett fyrir framan 10.000 manns, og það var augljóst að hún hafði ekki spilað fyrir svona stóra þvögu af fólki áður. Nærmynd af henni að spila var varpað á risaskjái við hliðiná sviðinu, og þetta er í fyrsta og eina skipti sem ég hef getað notað orðið "sjarmerandi" til að lýsa plötusnúði.

Um helgina keyrðum við Jóndi til Ísafjarðar á demparalausum gerfi-Land Rover á rokkhátíðina Aldrei fór ég suður. Aðal bandið á hátíðina var Blonde Redhead, og þau voru alveg ömurleg. Hljóðkerfið á staðnum var ekki upp á marga fiska, og það fór svo fyrir brjóstið á hljómsveitinni að þau voru klukkutíma að koma sér á svið, hættu í miðju lagi þegar það kom feedback, og hættu eftir þrjú lög. Hrá umgjörð hátíðarinnar, afskekkt staðsetning og vafasamt hljóð eru samt eitthvað sem aðrir flytjendur á hátíðinni tókst að nota sér í vil. Ég hef aldrei séð jafn mikla stemmningu á tónleikum með Ampop, Lay Low og Bloodgroup voru svakalega skemmtileg á sviði, og Esja, sem ég hélt að mér þætti leiðinleg hljómsveit, spiluðu fullkomna laugardags-eftirmiðdegis þynnkurokktónlist. Sprengjuhöllin héldu áfram að efna loforð um að vera næsta stóra popp-rokk hljómsveit íslendinga, Reykjavík!, sem eru alltaf skemmtilegir á tónleikum, skinu á heimavelli, og FM Belfast voru alveg helþétt og héldu sterkustu tónleika sína hingað til.

Uppgötvun hátíðarinnar fyrir mig var samt pönkhljómsveitin Æla. Ég verð að viðurkenna að ég er frekar seinn í þetta partí, þeir voru framan á Grapevine í fyrra, og þeir sem ég talaði við sögðu mér að gæði þessarar hljómsveitir væru ekki nýjar fréttir. Ég hef aldrei nennt að tékka á þessarri hljómsveit, eitthvað sagði mér að pönkhljómsveit sem heitir uppkast gæti bara ekki verið mér að skapi, en þéttleiki bandsins, rytmi og grúv hreyfðu við mínu litla teknóhjarta. Sviðssetningin, búningar og framkoma voru líka yfirmáta góð. Flestir voru á því að Reykjavík!, Mínus, FM Belfast, Ampop og nokkur til hafi verið sigurvegarar hátíðarinnar, og ég er sammála því, en fyrir mig var uppgötvun hátíðarinnar tvímælalaust Æla.

» Æla - Ekki snerta mig (Live demo)
» Æla á rokk.is
» Æla á myspace

(ég mæli einnig með því að þið sækið Flybus með Reykjavík! á myspace prófílnum þeirra)

Ummæli

Bobby Breidholt sagði…
Ég var einmitt sömu skoðunar og þú. Hvernig getur band sem heitir Æla verið sniðug? En þeir eru það. Frábær list með miður heppilegt nafn. Svipað og tilfinningaþrungna stuttmyndin hans Barney í Simpsons. Hún hét "Pukahontas".
Nafnlaus sagði…
Það er nú aldeilis ekki amalegt að vera einn af sigurvegurum rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður á Ísafirði.
Unknown sagði…
eins var FM Belfast með besta show síðustu Airwaves - en ekki td Klaxons...
Nafnlaus sagði…
...og Flaming Lips, sem HITUÐU UPP fyrir Suede (Gvuðlast!), og eiginlega enginn kom til að sjá, besta bandið það árið...
Nafnlaus sagði…
mér finnst æla ýkt viðeigandi nafn á pönkband..

þeir voru ógeðslega skemmtilegir og ég hef ákveðið að þeir verða einu mennirnir sem ég bjarga þegar ég sprengi suðurnesin
Nafnlaus sagði…
Ég ætla að vísa í orð Ara í hvert sinn sem ég þarf að sanna ágæti FM Belfast.
Nafnlaus sagði…
...og...var Blonde Redhead ekki skítsama hvortsemer, og nenntu ekkert að rembast? Og kannski var crowdinu líka sama? Ég meina, voru þau ekki að spila á Íslandi í 10. skiptið eða eitthvað? Gad dem.

Vinsælar færslur