mp3blogg

Afmælisvika B-Town Hitparade
Gestafærsla 4: Haukur í Reykjavík!





Mér, Hauki Sigurbirni Magnússyni, hefur alltaf fundist mp3 blogg vera töff, eða alveg frá því að ég frétti af tilvist þeirra fyrir nokkrum árum. Allir sem hafa einhverntíman verið í gaggó muna eftir náunganum sem var alltaf að sneika sér óumbeðinn í diskóbúr félagsmiðstöðvarinnar til þess að messa yfir storknuðum lýðnum hvað væri helst að frétta í heimi tónlistar (samkvæmt þeim tímaritum er hann var þá áskrifandi að, eða stal úr bókabúðum) – mp3blogg eru tilraun þessara sömu fávita til þess að halda lýðnum enn í heljargreipum og viðhalda hjá honum minnimáttarkennd yfir eigin tónlistarsmekk. Þá eða benda vinum sínum á hvað þeim finnst flott.
Og er það vel, enda þarf að halda almenningi í skefjum (ég sjálfur, verandi fáviti, sneikaði mér einmitt ósjaldan leið inn í diskóbúr félagsmiðstöðvarinnar á Ísafirði og þrumaði skrýtnum rímixum yfir hópa táningsstúlkna sem vildu helst fá að dansa við Scatman. Djöfull var það fínt, djöfull fannst mér ég sniðugur). Þessvegna varð ég glaður þegar grafíkurhönnuðurinn Sveinbjörn Pálsson bauð mér að skrifa gestablogg á mp3bloggið Breiðholt (sem hefur veitt mér ófáar gleðistundir gegnum árið) í tilefni afmælis þess. Nú skyldi einhver skjálfa í buxunum yfir yfirburðaþekkingu minni á tónlist sem kemst ekki í tísku fyrr en eftir þrjá mánuði.
Svo fór ég að hugsa.
Er það mitt hlutskipti að vera innblástur minnimáttarkenndar (og gæti ég það yfirhöfuð)? Hvað hef ég unnið til þess? Með því að kunna ensku og hafa nægan tíma á höndum til að lesa öll önnur mp3 blogg (því ég er, jú, atvinnulaus – mér sýnist mp3 bloggarar eiga það sammerkt að vera atvinnulausir, þá eða stunda vinnu sem krefst nær engrar viðveru)? Ég er ekkert glaður þegar ég sjálfur fæ minnimáttarkennd (sem gerist mjög oft, nema þegar ég er fullur) – hví ætti ég að vilja blása öðrum inn þá tilfinningu? Er fólk eitthvað bættara með því að fylgjast með tónlist hvort eð er?
Það var í ljósi þessa sem ég ákvað að birta bara lög með tónlistarmönnum sem þykja almennt hallærislegir eða hafa hlotið afburða slæma dóma (með einni undantekningu þó). Lög sem mér þykir samt geðveikt fín, en verða vart til þess fallin að einhverjum finnist ég vera cool náungi fyrir að hlusta á þau (meðan ég man: er enginn orðinn leiður á lögum þar sem að einhver stelpa syngur pínu dítjúnd yfir hressilegt elektróbít? Það er ég!). Svo sjá, framlag Hauks S. Magnússonar til afmælisfögnuðar Breiðholtsins:

Nine Elevens – Ride My Rattlesnake (EXLUSIVE!)
Eina lagið í boði frá mér sem einhverjum gæti þótt töff – því það er það. Af óútgefnu meistarastykki rokksveitarinnar Nine Elevens (það besta við nafnið er að kanar verða alltaf geeeeeðveikt fúlir og self-righteous þegar þeir heyra það). Platan er masteruð, Goddur er búinn að hanna flotta kápu og hún rokkar eins og moðerfokker, en samt er hún engu nær því að koma út í dag en hún var fyrir ári síðan. Og það er helvíti hart. Lagið er samt mjög gott, sérstaklega Jon Spencer kaflinn í miðjunni.

Mice Parade – The Last Ten Homes
Af nýrri og sjálftitlaðri plötu Mice Parade. Hún fékk glataða dóma á Pitsfjörk, og svo hefur hún hlotið slæmt umtal á mp3bloggum víða um heim. Hún er kölluð Emó. Múm-stelpan sýngur með sinni álfarödd á plötunni, en ekki í þessu lagi. Wolf Parade heita Wolf Parade af því að þeir þola ekki Mice Parade (skv einhverju viðtali). Ég hitti bandið á Krútt ’05 hátíðinni og í því eru margir hippalegir næringarfræðingar (allavega einn). Þrátt fyrir allt þetta finnst mér platan geðveikt fín, eins og rigningarsíðdegi. Og þetta lag er fínt líka. Ég er mjög væminn.

Cocorosie – Werewolf
Ég þoli ekki Cocorosie. Finnst þær tilgerðarlegar og hallærislegar. Dótabílar og blús. Pitsfjörk gaf nýju plötunni þeirra 2.3 eða eitthvað – og venjulega hefði hlakkað í mér. Ég varð samt fyrir því að sjá þær óvart á tónleikum í Belgíu um daginn og þá spiluðu þær þetta lag og það snart einhverjar taugar. Ég náði í plötuna, þrátt fyrir varnaðarorð pitsfjork, og finnst hún prýðileg. Þó ber þetta lag af öðrum. Nýja David Lynch myndin er annars glötuð.

Kiss Me Deadly – Dance 2
Það fór ekkert fyrir þessari plötu þegar hún kom út í fyrra, enda heitir hljómsveitin alveg glötuðu nafni og svo ískrar stundum í söngkonunni eins og hún sé að fremja einhvern ógeðslegan jógúrts-útskriftargjörning frá LHÍ. Og gítarleikarinn er undir stökum The Edge-áhrifum. Þetta lag er samt frábært og grípandi og glaðvært. Húrra.

Melonesian Choirs: The blessed Islands – Jisas Yu Holem Hand Blong Mi
Valdi vinur minn lét mig fá þetta. Það er úr myndinni ‘Thin Red Line’. Stelpur halda að maður sé geðveikt klár ef maður hlustar á heimstónlist. Mamma var líka ánægð með mig. Gott stöff.

V.E.G.A. – Lilja
Náði í þetta lag einhverstaðar um daginn. Það er geðveikt. Svartmálmur undir áhrifum frá Boards of Canada. Góð…uh… andrúmsloftstónlist. Rauðvín og kertaljós. Og SATAN.

The National – Fake Empire
Bókmenntarokk frá Brooklyn. Reyndar aðeins hæp. Samt mjög væmið lag og þykir sjálfsagt ekki töff til að blasta á neinum skemmtistað, enda gildir þar að vera eins fokking dítassjd og maður getur. Aldrei gefa á þér höggstað!

Hüsker Dü – No Reservations
Þetta lag er af síðustu plötu Minneapolis-hommana í Hüsker Dü, en í takti við þema mitt er hún eina platan þeirra sem svona fræðings-gagnrýnendur segja ekki að sé algjört meistarastykki. Þeim finnst hún vera sellát, tilraun til að mýkja sándið svo þeir kæmust í spilun á AM-stöðvunum, sem voru víst höfuðvígi korporat-softrokks í þá daga. Mér finnst hún samt mjög fín, hún er allavega ekki tekin upp á diktafón eins og hinar plöturnar. Sem eru reyndar allar algjör meistarastykki. Þetta lag er mjög væmið, og það er svona cool raddaður kafli í því sem er sérstaklega sykraður.

The Replacements – Talent Show
Önnur plata frá ’87, önnur Minneapolis sveit (gagnkynhneigð, þó), önnur síðasta-plata sem öllum sérfræðings-gagnrýnendum finnst glatað sellát. Kannski er hún það, og kannski hljómar lagið eins og örlí Síðan Skein Sól, en mér finnst það samt svakafínt. Eins og mamma sé að halda partí þegar ég er sex ára.

Takk fyrir mig – til hamingju með afmælið!

Ummæli

krilli sagði…
Jebb, takk Haukur
krilli sagði…
ps. ískrið er Töff

Vinsælar færslur