þriðjudagur, janúar 29, 2008

Who you gonna booty-call?Ghosthustler koma frá Texas og gera skemmtilega dansimússík. Þeir eru með þetta eitís-elektró dæmi í gangi og kemur mér það á óvart að þeir hafi ekki verið tjörubornir og hent út á járnbrautarteini fyrir að vera með svona músík í Texas. Það gæti alveg eins verið að þeir hafi lent í þannig, þegar þeir spiluðu á "Earl's Bar & Grill (Cold Beer - Color TV)". Ef svo er, þá dáist ég að þrautseigjunni í þeim.

'Only Me To Trust' er svona mánudags-koma sér í gírinn en 'Busy Busy Busy' er meira húllumhæ.

Ghosthustler - 'Only Me To Trust' mp3
Ghosthustler - 'Busy Busy Busy' mp3

laugardagur, janúar 26, 2008

Wooden MusicÓrafmagnið á hug minn allann þegar veðurguðirnir taka frosið froðudiskó. Ég furða mig alltaf á þeim sem kvarta undan snjó og kulda. Ég er nefnilega mikill aðdándi brakandi fannfergis, er áskrifandi að fréttabréfi dúnúlpuframleiðenda og mæti alltaf á tónleika með Frosty Blizzard and the Candlelights.

Teljum í og syngjum öll í kór er þessir kappar láta teitisgesti slökkva á græjunum og draga fram kassagítarinn. Hver þarf tekknó og bjórsull þegar maður hefur strengjaplokk og bjórsull?

Tim Hardin - 'Reason To Believe' mp3
Gregg Allman - 'These Days' (Nico cover) mp3
The Black Keys - 'The Lengths' mp3

Akústík partý leiða alltaf útí The Band.
The Band - 'Where Do We Go From Here' mp3

föstudagur, janúar 25, 2008

Dreggjar á FöstudegiHér eru nokkur lög sem ég ætlaði mér að pósta undanfarin misseri en fann ekki pláss fyrir. Svona músíkafgangar. En góðir afgangar þó... humarleifar í töpperwer.

Dansvænt og hóp-hróp. Stuð.
Friendly Fires - 'On Board' mp3

Flottur bassi. Dsico er með fínt stöff á síðunni sinni.
Ollo - 'Campaign' (Dsico's Krautrock remix) mp3

Þu-vílíkt þrusudiskó í gangi hérna.
Jorge Santana - 'Darling I love You' (Kon's Quick edit) mp3

Og einn steinkaldur sálarslagari. Þetta er vangalag kvöldsins.
Marvin Gaye - 'Mercy Mercy Me' mp3

THE MOTHERFUCKING BOSS!!!Gerðu einsog yfirmaðurinn segir og dansaðu í skammdeginu.
Annars ertu rekinn.

Bruce Motherfucking Springsteen - 'Dancing In The Dark' mp3

föstudagur, janúar 18, 2008

Niðurrif í miðbænum21:30 - Axlaböndin strekkt.
Ný safnplata frá Kitsune fer að koma út, sú fimmta í röðinni. Venjulega eru þeir skrefinu á undan í kúlinu, en í þetta skiptið finnst mér þeir vera að eltast við sánd sem er á afar hraðri leið út. Eintómt blog-house og frans-tekknó. En samt eðalmálmur inn á milli, T.d. Íslandsvinirnir í Friendly Fires, M.I.A. í reif stuði, Cryptic og þessi hér:
David E Sugar - 'To Yourself' mp3

23:55 - Smáskilaboð í óskilum.
Þegar við Sveinbjörn ritstýrðum tímaritinu VAMM (sællar minningar) í gamladaga, vorum við með lítinn efnislið sem hét 'Vanmetnir Snillingar' þar sem við tókum fyrir lið einsog Rod Stewart og ELO og reyndum að sanna ágæti þeirra. Ég mundi nú reyndar ekki ganga svo langt að kalla Boney M snillinga, en finnst þó að þeim ætti ekki að vera varpað á bálköst án nánari kynna. Ég legg fram eftirfarandi sönnunargagn:
Boney M - 'Felicidad' (Breidholt's Senorita Margarita edit) mp3

00:45 - Biðraðir, plastpokadingl.
Ég sakna eitís popptónlistar. Ekki bara því hún er svo frábær, heldur vegna þess að hún var svo einlæg og blátt áfram. Sætar píur með permanent sungu um ást, djamm, öfund og breiköpp og allir dansa svo það brakar í leðurbrókunum. Í dag syngja hórur um hvað papparassar séu glataðir, allir eru að slúðra látið mig í friði og ég er engin smástelpa (sjáið rasskinnarnar mínar). Það brakar ekkert í mínum leðurbrókum við þannig ógeð.
SOS Band - 'Just Be Good To Me' (Facemeat's tempo edit) mp3

04:456456 - Tímaflakk.
Það er löngu kominn tími á Electroclash endurvakningu. Þessi dýrðarár 2001-2005 þegar eitís, elektró og eiturlyf sópuðust saman í eitthvert kabarettklætt kynlífsvélmenni sem dansaði undir stróbljóstungli. Fischerspooner, Felix da Housecat, Mirwais, Electroberlin, Girls on Top, Green Velvet, Tiefschwarz, Tiga, Mr. Velcro Fastener, LFO og Dopplereffekt... drottinn minn góði, minningarnar!
Adult - 'Hand To Phone' (Cordless Mix) mp3

05:40 - Bjargvætturinn sæng.
Ooooog slaka.
Fleetwood Mac - 'Safe Harbor' mp3

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Standard bloggfærsla.

Hey krakkar, ég var að finna svaka skemmtilegt popplag á internetinu. Þetta er svona með kassagítar og trommum og söng, svaka grípandi. Þið ættuð að sækja þetta, þá getið þið hlustað og sungið með! Þessir gæjar verða pottþétt stórir einhverntímann, nema ef það gerist ekki.

» Vampire Weekend - Oxford Comma

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Fötumökk Heljarstökk


Axel Antas

Þessa dagana hlusta ég eiginlega bara á tvær tónlistartegundir og önnur þeirra er reggae. Ég er með blessaðan bökuðukartöflu-taktinn á heilanum og elska að vinna/teikna/skrifa við ljúfan eyjuhljóm og ástarsöngva Barbadoskvenna. Svo er líka kafaldsbylsþriðjudagur að kaffæra mann með köldum kodda og því er fátt annað að gera en að láta börkinn reika til steiktra stranda og kókoshnetuhýðis.

Fyrst er það ólátabelgurinn og hamhleypan Lee 'Scratch' Perry með sína útgáfu af 'Chase The Devil' sem Max Romeo gerði frægt á svipuðum ef ekki sama tíma. Ég var einmitt að lesa það að í Jamaíku, þegar þú tekur svona karaókí spuna-söng ofan á annarra manna lag er það kallað 'Toasting' þannig að hananú.
Lee 'Scratch' Perry - 'Disco Devil' mp3

Slökum okkur yfir í vangadans og kelum soldið í hengirúminu. Susan Cadogan syngur hér um eitthvað dusilmennið sem fer illa með hana. En Súsí fílar þannig gæja og heimtar því meira. Þessar kellingar.
Susan Cadogan - 'Hurt So Good' mp3

Hin tónlistartegundin sem ég er með á heilanum er diskó. Og viti menn, hér er lag sem sameinar þessa tvo stíla. Þetta er af hinni æðislegu safnplötu Hustle! Reggae Disco sem ætti að vera til í hverjum strandkofa.
Family Choice - 'And The Beat Goes On' mp3

föstudagur, janúar 11, 2008

Þá byrjar ballið

Í eitís var Michael Jackson duglegur að gera dúetta með skallapoppurum. Paul McCartney fékk algert jungle fever og gerði 'The Girl is Mine' og 'Say Say Say' með honum og á svipuðum tíma hringdi síminn hjá Rolling Stones... The Rolling Phone.

Árið 1984 gerðu Jacko og Mick Jagger hinn dúndurgrípandi smell 'State Of Shock' sem gerði væntanlega allt tryllt í bílnum hjá stóra bróður mínum.


Mazdan hans Steina var reyndar svört og með svona plast-blæju-grind fyrir afturglugganum.

Þetta telst tæknilega séð lag með The Jacksons því bræður hans fengu að skúra gólfið í stúdíóinu og einn eða tveir fengu að syngja bakraddir.

The Jacksons & Mick Jagger - 'State of Shock' mp3


- - - -

Svo minni ég alla á viðburð helgarinnar. Á Organ annað kvöld munu Stóðhestalávarðarnir, Forseti Bongólands og Bjössi Pé leika fyrir dansi í fullum skrúða og slá hvergi af í fúttinu. Alls ekki galið.

Busy P er eigandi Ed Banger og umboðsmaður Daft Punk. Svona Einar Bárðarson Frakklands.

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Úr BréfalúgunniAldavinir okkar í Ssion voru að fá í hendurnar remix á elektrósmelli sínum 'Clown'. Það hreinlega lekur af því unaðurinn og eitís-glossið. Hvar fær maður svona fjólubláar Eddie Murphy leðurbuxur?

Hérna er upphaflega útgáfan til að setja allt í samhengi.
Ssion - 'Clown' mp3

Hérna er svo hið glænýja remix, eftir hin stórkostlegu Glass Candy!
Ssion - 'Clown' (Glass Candy rmx) mp3

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Heitt rafmagn / hott electricity

Hvað er betra á nýju ári en smá rafmagn í kroppinn...

Mér finnst þetta lag með Chromatics mega flott, mér finnst reyndar orginallinn alveg sætur líka en ég fíla góðar endurgerðir.

Chromatics - 'The Wanderer' mp3

Hér er myndband með upphaflegu útgáfunni með Dion, Tékkið á stuðinu í salnum.. vaaaaáááúúúhhhh it's on fire babee !!!

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Eyðimerkurjanúar

Það er auðvitað alveg bullandi andleg þynnka í gangi og þjóðin leitar hjálpar. Ég hef verið duglegur að stinga elektrónískri tónlist hingað undanfarið en nú tel ég að það sé tími á soldið kántrí. Hér er hvorki um stefnubreytingu né áramótaheit að ræða, því allir vita að mitt heit er að aka á sláttuvél þvert yfir Rússland.Gram Parsons er án vafa einn áhrifamesti tónlistarmaður sem þú hefur aldrei heyrt um. Hann kom kántrí/rokk bylgjunni af stað í sixtís með International Submarine Band og Flying Burrito Bros. Hann breytti Byrds og Rolling Stones í kántríhljómsveitir, var ábyrgur fyrir stofnun The Eagles og kom Emmylou Harris á framfæri. Þrátt fyrir að hafa varla selt tíu plötur á ferlinum lifði Gram einsog Jesú, enda af moldríkri ætt appelsínubænda í Flórída. Það var ekki óþekkt að hann mætti á limósínu þegar bandið var að koma fram fyrir hálftómu bingókvöldi á Ellefunni eða eitthvað álíka.

Það þarf varla að taka það fram að hann drap sig á dópi og sukki, einsog virðist vera raunin með 90% allra költ hetja í músík. Það var síðan soldill skandall þegar umboðsmaður Grams rændi volgu líki hans úr kistunni, brunaði með það í eyðimörkina með lögguna á hælunum og brenndi það við dræmar undirtektir Parsons fjölskyldunnar. En draugur Gram Parsons lifir auðvitað við mikla hylli og aðdáun. Þömbum viskí og förum svo í andaglas.

Flying Burrito Bros. - 'Sin City' mp3
Flying Burrito Bros. - 'Hot Burrito #2' mp3

Og smá bónus-
Gram Parsons - 'November Nights' mp3
Gram einn að lufsast með kasettutæki. Aðeins meira folk en kántrí, enda tekið upp '65.