fimmtudagur, september 25, 2008

Hljómur Framtíðar

Sonus Futurae voru gríðarlegir frumkvöðlar í íslenskri tónlistarsögu. Þeir voru fyrsta synthabandið, gáfu út fyrstu synthaplötuna og gáfu auk þess út fyrsta íslenska tónlistarmyndbandið (eflaust fullt af synthum). Hér er smá innsýn í nafnið.


Fann ekki betri mynd.
Maður skyldi ætla að 'fyrsta íslenska synthabandið'
hafi skilið eftir sig fullt af myndum með hansagardínum og leiserljósum.


Alveg einstaklega smekkleg nýbylgja. 'Klapp-klapp' hljóðið í viðlaginu er alveg ómótstæðilegt. Kærar þakkir til Páls Inga, Breiðholtsblóðbróður, sem var svo höfðinglegur að senda þetta á okkur.

Sonus Futurae - 'Myndbandið' mp3

þriðjudagur, september 23, 2008

"The bums will always lose!"Eftir að ég fékk Big Lebowski keilukúluna hef ég verið með pínu Creedence æði. Þeir þykja nú ekkert ýkja kúl í dag, piltarnir í Creedence en John Fogerty er samt flottasta röddin í gamla rokkinu að mínu mati og þeir koma manni alltaf í fínt skap. Tvö dæmi úr gullöldinni: Eitt uppbít sem maður heyrir ekki oft og svo eitt besta blue-eyed soul lag allra tíma.

Creedence Clearwater Revival - 'Bootleg' mp3
Creedence Clearwater Revival - 'Long As I Can See The Light' mp3

PS
Hver vill gefa mér svona í jólagjöf?

sunnudagur, september 21, 2008

Draumar um RafkindurÞegar það er sunnudagur og rigning úti þá er bókstaflega ekkert annað til í dæminu en að setja Blade Runner playlistann í gang.

Vangelis - 'Blush Response' mp3
Vangelis - 'Longing' mp3
Vangelis - 'Fading Away' mp3

Og auðvitað...
Vangelis & Dick Morrissey - 'Love Theme' mp3Unaður. Áhugasömum bendi ég á þetta blogg þar sem má finna (og sækja) urmull af tónlist úr myndinni.

miðvikudagur, september 17, 2008

Bang Bang, You're Terry ReidÉg hélt fyrst að Terry Reid væri svartur. Einhver þeldökkur, sveittur soul warrior í flöskugrænum flauelisjakkafötum með bleikan vasaklút í hönd. Þvílík var sálarangistin í rödd hans. En neinei, hann ku hvítur, breskur og vera meira fyrir rúllukragapeysur. En það breytir því ekki að hann er með rödd sem lætur konur kikna í hnjánum og hross taka heljarstökk. Eða öfugt. Þvílíkur raddbelgur. Engin furða að hann er kallaður 'Superlungs'.

En já, hann á sér skemmtilega sögu, eða pínlega réttara að segja. Eftir nokkur ár af pöbbaspileríi var Terry boðið að vera með í nýrri hljómsveit sem var verið að setja á laggirnar. Terry hélt nú ekki, hann var á leið á túr að hita upp fyrir Stones, en hann stakk þó upp á vini sínum sem hljóp í skarðið. Vinurinn var Robert Plant og hljómsveitin var Mamas and the Papas. Nei djók, auðvitað Led Zeppelin. Svo afþakkaði hann líka sæti í Deep Purple bara til að sýna að Zep klúðrið væri ekki bara heppni.

En lögin eru mögnuð fyrirbæri, því verður ekki logið.

Terry Reid - 'Dean' mp3

Terry Reid - 'Superlungs My Supergirl' mp3

miðvikudagur, september 10, 2008

Reykjavík!, Terrordisco & Hungry and the Burger
Ég var að fá eftirfarandi fréttatilkynningu í pósti. Út af því að hún fjallar m.a. um mig verð ég nú að koma þessu á framfæri:

"Reykjavík! Kynnir: „Afþvíbara“ partýstuð á laugardaginn!

Hljómsveitin Reykjavík! hefur löngum verið stærsti aðdáandi aðdáenda sinna, alltaf notið þess stíft að bjóða þeim í góð geim, glæsileg partý og geggjað gurl og jafnan gert mikið af slíku.

Þessi helgi verður engin undantekning þar á...

Af fjölmörgum tilefnum, þá sérstaklega lífinu eins og það leggur sig, hefur Reykjavík! ákveðið að efna til gleðskapar á Kaffibarnum við Bergsstaðastræti n.k. laugardagskvöld. Er öllum sem þetta lesa hérmeð hátíðlega boðið og um leið lofað góðu stuði í góðra vina hópi, langt fram eftir kvöldi.

Gleðin þetta laugardagskvöld hefst kl. 21:00 – og henni lýkur eiginlega aldrei. Þó má fólk gera ráð fyrir því að Kaffibarinn loki samkvæmt lögum borgarinnar árla morguns þessa aðfaranótt sunnudags, en þá er ekkert sem stoppar áhugasama að dansa káta á strætum borgarinnar fram eftir morgni og inn í morgunmessu eða sund.

Góðir gestir eru væntanlegir í þessa fyrstu (af fjölmörgum) veislum haust-tíðar. Er gleðskapurinn sérstaklega tileinkaður hljómsveitinni Hungry and the Burger, sem gefur í vikunni út sína fyrstu breiðskífu, en Reykjavík!urmenn líta mjög upp til sveitarinnar og hafa því ákveðið að fagna útgáfunni sérstaklega. Verður breiðskífan ‘Lettuce and Tomato’ því leikin í heild sinni af glæru vasadiskói áður en Reykjavík! stígur sjálf á stokk, en platan mun fást í veislunni á æðislegu tilboðsverði.

Einnig mun plötusnúðurinnn frómi TERRORDISCO stíga á stokk og leika faglega og fallega tónlist fyrir dansi, en þess má geta að sá hyggst frumflytja tvö ef ekki fleiri lög þar. TERRORDISCO er líkt og allir vita fremsti plötusnúður þjóðarinnar, en hann mun halda út til náms bráðlega og er þetta því síðasta tækifæri æstra aðdáenda hans til að berja goðið augum í bili.

Eins má búast við því að einhverjir af gestaleikurum væntanlegrar breiðskífu Reykjavík!ur stígi á stokk, en þetta kvöldið verður hulunni svipt af titli skífunnar (en hennar bíða allir spekúlantar landsins af ólund og ánægju).

Sem kunnugt er hefur Reykjavík! aldrei verið fær í fjármálum og er ugglaust einhver skuldugasta hljómsveit landans. Í þeim anda verður frítt inn á viðburðinn – og ókeypis bjór í boði fyrir þyrsta.

Hvað? Reykjavíx!-parý á Kaffibarnum
Hvenær? Laugardaginn 13. september, kl. 21:00
Hverjir? Reykjavík! Terrordisco, Hungry and the Burger + GLEÐIN!
Af hverju? Af því bara!

Um Reykjavík!

Reykjavík! hefur undanfarin mánuð setið sveitt ásamt óhljóðasnillingnum Ben Frost við upptökur á væntanlegri breiðskífu, sem mun verða nefnd í partýi laugardagsins. Þeir sem hlýtt hafa á forblöndunareintök eiga vart orð yfir snilldinni og andaktinni sem þar má finna, og drengirnir sjálfir geta ekki beðið eftir því að demba skífunni yfir landann."

Hún verður gefin út af KIMI RECORDS eins fljótt og auðið er, og hún mun rústa þér.


Reykjavík! - 'You Always Kill' mp3

Terrordisco - 'Moments in Love 2' mp3

Hungry and the Burger - 'Cosmonauts' mp3

mánudagur, september 08, 2008

Sybbið KúrÞessi lög eru einsog lopasápa. Lifa á mörkum svefns og vöku og borða krem af köku. Við viljum enga leðurblöku heldur koss á höku og flísteppis vöku. Semsagt mjög róleg og kósí lög sem ylja manni án þess að detta ofan í krúttfílinginn.

The Concretes - 'Miss You' (Rolling Stones cover) mp3

The Heavy Blinkers - 'The Night and I' mp3

laugardagur, september 06, 2008

OK eitt tryllt helgarlagVið í Breiðholtinu erum miklir aðdáendur Pomomofo og settum þá m.a. á árslistann okkar í fyrra. Þeir sendu þetta lag á okkur í liðinni viku og þetta er, lofa ég, fyrir þá allra hörðustu í stuðinu. Laugardagsfár indeed. Endurhljóðblandað af Toxic Avenger.

Pomomofo - 'Island' (TOXIC AVENGER REMIX) mp3


BÓNUS!
Ég póstaði þessu lagi fyrir svolitlu síðan, en fannst tilefni til að endurdeila. Algjört rugl stuð. Cover á gamla Laid Back slagaranum sem allir kannast við.

Pomomofo - 'White Horse' mp3

föstudagur, september 05, 2008

Ennþá Díva

Þangað til hún fer að gera einhverja nýja tónlist blessunin hún Amy Crackhouse, þá er bara að njóta þess sem liggur eftir hana. Ensku töffararnir í NYPC gerðu þetta dýrindis megamix og ég hef verið að tauta með þessu í nokkra daga. Minnir mann svo sannarlega á að Amy er mikill talent þrátt fyrir að virðast einbeitt í að láta persónulega lífið skyggja á það.

Þetta er svosem ekki mikið helgardjammlag, en þetta er fullkomið keyra-heim-úr-vinnunni lag. Flottó.

Amy Winehouse - 'Tears Dry On Their Own' (New Young Pony Club Remix) mp3