mánudagur, febrúar 23, 2009

Go Árni - GodiegoOkkar maður í Japan, Árni Kristjánsson var að senda frá sér spánnýtt edit og er hér um að ræða japanskt geimrokk af geggjuðustu sort.

Segir Árni í rándýru símaviðtali: „Hérna er smá edit sem ég var að gera af japönsku 70s rokk-sveitinni Godiego. Upprunalega lagið byrjar alveg cyber-töff en verður hræðilegt þegar líður á svo að ég notaði það sem ég gat og gerði edit af því svo það virkar sem stuttur lagstúfur.“

Takk Fjelagi!

» Godiego - "Monkey Magic" (Árni Kristjánsson mini-edit)

þriðjudagur, febrúar 17, 2009

RecMér leið einsog ég hafi grafið upp einhverja gleymda kassettu þegar ég heyrði þetta lag fyrst. Einsog upptaka af stóner rokk bandi að spila í eftirpartý í snekkjunni hans Jan Hammer vorið 1986.

Flytjendur eru reykvíska bandið Nolo og hvar þeir hafa fengið þessa tímavél vil ég vita.

» Nolo - "Miami Toast"

mánudagur, febrúar 16, 2009

BlörrAriel Pink er artífartí gaur frá Beverly Hills sem gerir ansi tormelta tónlist sem hann gefur út kvist og bast í kassettugæðum. Svo kvistað og bastað er þetta hjá honum að aðdáendur hans hafa fæstir heyrt plötur hans í heild sinni. Aðdáendurnir eru víst líka duglegir að baula á hann á tónleikum enda er hann víst enn tormeltari á sviði en á plötu.

En þetta lag er ekki tormelt, þvert á móti. Þetta er þvílíkt útúr smooth 70's popp að það er einsog ljóskastari úr políester. Minnir mig á Alan Parsons Project og Fleetwood Mac á Bob Welch tímabilinu. Ef hann heldur svona áfram þá mega Chromatics fara að vara sig í kómadiskó deildinni.

» Ariel Pink's Haunted Graffiti - "Can't Hear My Eyes"

laugardagur, febrúar 14, 2009

Einn Til

Hér er eitt sem varð afgangs í gær. Britpop æðið var í algleymingi um miðjan tíunda áratuginn. Ég var aldrei inní þessu Blur vs Oasis rugli (voru það ekki bara stelpurnar?). Ég var allur í rappinu annars vegar og í bandaríska artý-grugginu (Sonic Youth) hins vegar. Af bresku böndunum fílaði ég helst Pulp ('Common People' er mögulega besta popplag 90's) en hafði líka veikan blett fyrir Suede. Þeir voru alltaf mest sleazy af öllum þessum bóluböndum.

» Suede - "Animal Nitrate"


Sepia: Opinber litur 90's

föstudagur, febrúar 13, 2009

Hin Hála Braut NostalgíunnarÉg lýsi því yfir að dagurinn í dag, föstudagurinn þrettándi febrúar 2009, sé Unglingadagur. Planið er að hlusta á ekkert nema tónlist frá unglingavinnuárunum og fara svo á sopafyllerí og dansa við lúsera rokk þangað til keðjuveskið hendist uppúr rassvasanum.Ég afmarka tímabilið svona: Beck kom fram sirka '94 með svona slæpingja-dropout rokk. Á sama tíma fengu gruggbönd loksins að dafna & þroskast eftir að hafa verið í skugganum af Kurt Cobain. Úr þessu varð svona köflótt þunglyndis rokk fyrir lið sem dýrkaði Janeane Garofalo. Svo gerðist þetta svolítið commercial þegar Drew Barrymore og Liv Tyler fóru að blandast í málin. Skyndilega virtust allir vera komnir í keiluskyrtur. Svo endaði þetta allt rétt uppúr aldamótum þegar fólk nennti ekki að vera þunglynt lengur og kaus frekar tippabrandara.

En tónlistin var góð, þó ekki nema fyrir minningarnar. Þetta ættu allir að eiga á kassettu heima, tekið upp af Xinu.

» Marcy Playground - "Sex and Candy"
» L7 - "Pretend We're Dead"
» Sonic Youth - "Sugar Cane"
» Wheatus - "Teenage Dirtbag"

miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Vangalag fyrir VindsængÉg hef ritað um Gene Clark hérna áður enda er hann í miklu uppáhaldi hjá mér. Það er alveg bömmer time að lesa lífshlaup hans en tónlistin sem situr eftir er glóandi, brennandi snilld. Mikill frumkvöðull var hann í þjóðlaga- og kántrírokki, var aðallagahöfundur Byrds á gullárunum en endaði í oblivion og drapst úr áfengi fyrir fimmtugt. Ég gróf upp þessa perlu með honum um daginn. Soldill californíu-CSNY fílingur yfir þessu.

» Gene Clark - "Silver Raven"

mánudagur, febrúar 09, 2009

Mánudags Sveitaró

Lagið 'Reason to Believe' eftir Tim heitinn Hardin er ein af mestu perlum dægurfólks sögunnar að mínu mati. Einfalt, grípandi og fullt af tilfinningu og sál. Það eru greinilega margir sammála mér í því, enda hefur lagið verið coverað af hérumbil öllum. Cher, Scott McKenzie, Rod Stewart, Glen Campbell, Bobby Darin og Carpenters hafa öll tekist á við það. En þrátt fyrir að útgáfan hans Rod sé býsna góð, þá segi ég að The Youngbloods hafi vinninginn.


Wá gæjinn til vinstri passar ekkert inní hópinn. Hann er rosalega 80's

Youngbloods eru þekktastir fyrir hippasmellinn 'Get Together' en náðu aldrei þeirri hylli sem þeir áttu skilið. Platan 'Earth Music' frá 1967 er full af sveitaskotnu gleðipoppi og er ein af fyrstu kántrýrokk plötunum. Þar fær einmitt Reason að hljóma.

*Fegurrrrð*

» The Youngbloods - "Reason to Believe"

laugardagur, febrúar 07, 2009

Gestafærsla: Árni Kristjánsson sendir út frá Tokyo.Minako Yoshida er japönsk söngkona og lagasmiður sem að gerði garðinn frægan í upphafi áttunda áratugarins. Fyrir utan að semja eigin funk/folk-skotna popptónlist þá vann hún einnig mikið með poppgoðinu Tatsuro Yamashita sem að bróðir hennar var upptökustjóri fyrir.

Þetta lag er af plötunni Twilight Zone frá 1977 og er talið klassík meðal plötusafnara hér í borg. Sjö-tomman af þessu lagi inniheldur einnig "Part II" sem er eftirsóknarvert hjá hip-hop pródúserum út af trommutakti sem að byrjar lagið.

» Minako Yoshida - "Shooting Star of Love"