Suzanne Vega



Ég hef verið skotinn í röddinni hennar Suzanne Vega síðan að ég var 7 ára. Ég bjó í gulri blokkarsamstæðu sem hét Studiegången eða stúdentagangar og það voru flestir þarna í massívum hippafíling. Í þessum sænska samvinnukúltúr var mikil samfélagsleg stemmning, og eitt af því sem fólkið gerði þarna var að halda bíósýningar fyrir börnin. Í kjallaraherbergi í rónablokkinni (sumsé einstaklingsíbúðirnar, þar sem fulla fólkið bjó), var herbergi sem notað var undir bíósýningar. Á undan sýningu á myndum eins og Ferris Bueller's Day Off spiluðu hippakonurnar sem héldu utan um þetta oft lög með Suzanne Vega og Tanita Tikaram, og þar festist fyrst lagið Luka í hausnum á mér. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að ég áttaði mig á hvað lagið fjallaði um. Þegar ég var 12 ára kveikti ég á danstónlist, og eitt af fyrstu lögunum sem náðu mér í þeim geira var Tom's Diner með Suzanne Vega og DNA. Þegar ég var um tvítugt rakst ég á Best Of disk með henni í Skífunni, og ákvað að tékka á svona uppá djókið.
Þar uppgötvaði ég ótrúlegann heim laga, þar sem sakleysisleg en dapur röddin líður yfir ótrúlega fallegar melódíur, og textar sem síast inn, stækka og breytast með hverri hlustun. Hún er eiginlega meira skáld en tónlistarmaður, tónlistin farvegur fyrir texta sem ganga nær manni með hverri hlustun.

Lagið Caramel er eitt af þeim lögum með henni sem ég gríp í á daprari dögum. Lagið fjallar um söknuð, og að sleppa tökunum, og virðist hitta ótrúlega vel á einmitt núna.

» Suzanne Vega - Caramel

Ummæli

Vinsælar færslur