Mánudagslag #23

Enn einn mánudagurinn lentur til að hrella okkur. Eftir klukkutíma baráttu við snús takkann er maður loksins klæddur og kominn á leið í vinnuna.

"You load sixteen tons, what do you get, another day older and deeper in debt"

Í ágúst 1946 var tónlistarmaður að nafni Merle Travis var beðinn af útgáfufyrirtæki sínu að gefa út plötu með gömlum þjóðlögum, þar sem að útgáfufyrirtækið, Capitol, var að mala gull af þjóðlagaplötu sem annar tónlistarmaður, Burl Ives, hafði nýverið gefið út. Merle átti í hálfgerðum vandræðum með að finna lög, þar sem að Burl þessi hafði tekið alla helstu þjóðlagasmellina á plötunni sinni, þannig að hann settist niður og reyndi að skrifa nokkur ný lög sem sánduðu gömul.
Viðlagið byggði á bréfi sem Merle hafði fengið frá bróður sínum, sem syrgði fráfall blaðamansins Ernie Pyle, sem lést þar sem hann var að skýra frá átökum í Kyrrahafi. Í bréfinu stóð "It's like working in the coal mines. You load sixteen tons and what do you get? Another day older and deeper in debt."

Lagið kom út 1947, og vakti upp nokkrar deilur. Kommahysterían var í algleymingi. Lagið fjallar um hvað það er ömurlegt að vera námugrafari. Á þessum tíma var algengt að menn bjuggu og unnu í námubæjum, unnu í námuni, og versluðu í verslun námufélagsins. Verðlaginu í verslunum námufélagsins var haldið þannig, að menn komust fljótt í skuld við fyrirtækið sem þeir komust aldrei út úr, og þannig héldu námufyrirtækin starfsmönnum sínum í gislingu ár eftir ár. Út af því að þetta lag ýjaði að því að það væri ekki beinlínis æðislegt að vinna í námu, var Merle brennimerktur sem kommavinur og átti erfitt uppdráttar um skeið vegna þess.

Átta árum síðar kynntist útvarps- og tónlistarmaðurinn Tennesee Ernie Ford laginu og höfundinum í gegnum vinnu sína. Hann prófaði að spila lagið í þættinum, og fékk rífandi viðtökur, svo góðar að hann ákvað að gera lagið að B-hlið á smáskífu sem hann var að gefa út.

Eins og gerist oft í sögum sem þessarri féll A-hlið smáskífunar í gleymskunnar dá, en B-hliðin er eitt af goðsagnakendari lögum tónlistarsögu 20. aldarinnar. Eftir að útgáfa Tennessee Ernie Ford kom laginu, og höfundi þess, svona rækilega á kortið, breytti Merle Travis alltaf síðasta viðlagi lagsins þegar hann flutti það á tónleikum í "I owe my soul...to Tennessee Ernie Ford."

"St. Peter don't you call me 'cause I can't go, I owe my soul to the company store"

Fyrir okkur sem þurfum að mæta í vinnu á mánudagsmorgnum hefur þetta lag magnþrungna merkingu. Það er kannski ekki alveg sami hluturinn að vinna í kolanámu og á auglýsingastofu, en við Björn Þór þekkjum samt þjáninguna. Þess vegna setjum við þetta lag á fóninn yfir fyrsta kaffibollanum á kaffistofunni og grátum í öxlina á hvorum öðrum yfir þessum sáru örlögum okkar, að þurfa að vinna fyrir launum okkar. Jafnvel á mánudegi. Atvinnuveitendur eru skepnur.

(Þessi pistill er byggður á þessarri grein)

Tennessee Ernie Ford - '16 Tons'
mp3

Ummæli

Vinsælar færslur