1:
Sænska tölvupopphljómsveitin Visitors voru sennilega no-hit non-wonders. Ég get ekki sagt þetta með fullvissu út af því að heimildir mínar fyrir tilvist hljómsveitarinnar (fyrir utan tónlistina sjálfa) eru virkilega grysjóttar; annars vegar er það internetið, þar sem heimildir eru litlar og óljósar, og hins vegar minningar mínar úr barnæsku í Svíþjóð. Barnæskuminningarnar eru óljósar, ég man eftir því að hafa séð þá í sjónvarpinu, fékk lagið þeirra á heilann, og leitaði að því stöku sinnum á netinu í fullorðinstíð þangað til að ég fann það loksins í fyrra.
Heimildir um hljómsveitina af netinu eru litlu skárri, ég fann eina aðdáendasíðu þar sem textinn er fullur af loðnum staðhæfingum ("sell out tour", "had their records released all over the world"), og pipraður með vafasömum afrekum ("topped the icelandic charts", "awarded a swedish grammy").

2:
Lagið þeirra, Nothing To Write Home About, fjallar um geimfara sem situr einn og yfirgefinn einhversstaðar á reiki um alheiminn, þúsund ljósár frá . Geimferðir, sem þóttu áður svo merkileg afrek, eru orðin tíð og blákaldur raunveruleiki starfsins er orðinn deginum ljósari: það er drepleiðinlegt að vera geimfari. Og ó svo einmannalegt. Dauðaþögn og myrkur. Og hann situr þarna uppi í tóminu, með blað og penna fyrir framan sig, dettur ekkert í hug, og hripar loks niður að hann hafi bara ekkert til að segja frá. Yfir og út.
Í endanum klykkir hann út með þessum hressu orðum: "What was once a daily step for mankind, is now my daily routine. Yesterday's news won't make the headlines. No one remembers my name but you."

3:
Syntapopp með geimívafi náði hápunkti við upphaf níunda áratugarins, með geimdiskói Giorgio Moroder og félaga, og þegar hér er komið við sögu, árið 1988, eru þetta orðnar nokkuð gamlar fréttir. Hiphop og Hústónlist eru að ryðja sig til rúms, og þetta tónlistarform er sennilega orðið pínu lummó. Visitors voru að fást við fréttir gærdagsins, og voru helvíti góðir í því, en ef stærsta meikið þitt er Ísland hefur þú sennilega fátt til að monta þér af í bréfunum heim.

Lagið er samt ógeðslega skemmtilegt, og þó að Svante og Goran hafi verið pínu seinir til, og er þetta eitt besta dæmi um geim-baserað tölvupopp frá Svíþjóð sem fyrirfinnst.» Visitors - Nothing To Write Home About  MP3 

Ummæli

Vinsælar færslur