Reykjavík!, Terrordisco & Hungry and the Burger
Ég var að fá eftirfarandi fréttatilkynningu í pósti. Út af því að hún fjallar m.a. um mig verð ég nú að koma þessu á framfæri:

"Reykjavík! Kynnir: „Afþvíbara“ partýstuð á laugardaginn!

Hljómsveitin Reykjavík! hefur löngum verið stærsti aðdáandi aðdáenda sinna, alltaf notið þess stíft að bjóða þeim í góð geim, glæsileg partý og geggjað gurl og jafnan gert mikið af slíku.

Þessi helgi verður engin undantekning þar á...

Af fjölmörgum tilefnum, þá sérstaklega lífinu eins og það leggur sig, hefur Reykjavík! ákveðið að efna til gleðskapar á Kaffibarnum við Bergsstaðastræti n.k. laugardagskvöld. Er öllum sem þetta lesa hérmeð hátíðlega boðið og um leið lofað góðu stuði í góðra vina hópi, langt fram eftir kvöldi.

Gleðin þetta laugardagskvöld hefst kl. 21:00 – og henni lýkur eiginlega aldrei. Þó má fólk gera ráð fyrir því að Kaffibarinn loki samkvæmt lögum borgarinnar árla morguns þessa aðfaranótt sunnudags, en þá er ekkert sem stoppar áhugasama að dansa káta á strætum borgarinnar fram eftir morgni og inn í morgunmessu eða sund.

Góðir gestir eru væntanlegir í þessa fyrstu (af fjölmörgum) veislum haust-tíðar. Er gleðskapurinn sérstaklega tileinkaður hljómsveitinni Hungry and the Burger, sem gefur í vikunni út sína fyrstu breiðskífu, en Reykjavík!urmenn líta mjög upp til sveitarinnar og hafa því ákveðið að fagna útgáfunni sérstaklega. Verður breiðskífan ‘Lettuce and Tomato’ því leikin í heild sinni af glæru vasadiskói áður en Reykjavík! stígur sjálf á stokk, en platan mun fást í veislunni á æðislegu tilboðsverði.

Einnig mun plötusnúðurinnn frómi TERRORDISCO stíga á stokk og leika faglega og fallega tónlist fyrir dansi, en þess má geta að sá hyggst frumflytja tvö ef ekki fleiri lög þar. TERRORDISCO er líkt og allir vita fremsti plötusnúður þjóðarinnar, en hann mun halda út til náms bráðlega og er þetta því síðasta tækifæri æstra aðdáenda hans til að berja goðið augum í bili.

Eins má búast við því að einhverjir af gestaleikurum væntanlegrar breiðskífu Reykjavík!ur stígi á stokk, en þetta kvöldið verður hulunni svipt af titli skífunnar (en hennar bíða allir spekúlantar landsins af ólund og ánægju).

Sem kunnugt er hefur Reykjavík! aldrei verið fær í fjármálum og er ugglaust einhver skuldugasta hljómsveit landans. Í þeim anda verður frítt inn á viðburðinn – og ókeypis bjór í boði fyrir þyrsta.

Hvað? Reykjavíx!-parý á Kaffibarnum
Hvenær? Laugardaginn 13. september, kl. 21:00
Hverjir? Reykjavík! Terrordisco, Hungry and the Burger + GLEÐIN!
Af hverju? Af því bara!

Um Reykjavík!

Reykjavík! hefur undanfarin mánuð setið sveitt ásamt óhljóðasnillingnum Ben Frost við upptökur á væntanlegri breiðskífu, sem mun verða nefnd í partýi laugardagsins. Þeir sem hlýtt hafa á forblöndunareintök eiga vart orð yfir snilldinni og andaktinni sem þar má finna, og drengirnir sjálfir geta ekki beðið eftir því að demba skífunni yfir landann."

Hún verður gefin út af KIMI RECORDS eins fljótt og auðið er, og hún mun rústa þér.


Reykjavík! - 'You Always Kill' mp3

Terrordisco - 'Moments in Love 2' mp3

Hungry and the Burger - 'Cosmonauts' mp3

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Húrr-fokking-a!

-Einar

Vinsælar færslur