Mugison


Mugison
Originally uploaded by _Skotta_

Ég hef haft miklar mætur á tónlistarmanninum Mugison í þónokkurn tíma. Merkilegt nokk þá get ég mælt tímann sem ég hef haft mætur á honum, en það eru fimm ár, fjórir mánuðir og sirka tvær vikur. Aðra vikuna í júní árið 2004 var ég á tónlistarhátíðinni Sónar í Barcelona. Mugi var eini íslenski tónlistarmaðurinn sem kom fram á hátíðinni það árið (fyrir utan Ghostigital, en þeir voru að spila áður en við lentum), þannig að við urðum að kíkja og skoða þetta. Ég var búinn að heyra þetta nafn áður, samstarfsmaður minn hafði miklar mætur á honum, en ég hafði aldrei heyrt neitt með honum sjálfur.
Tónleikarnir voru alveg svakalegir. Hann stóð einn upp á sviði (ef ég man rétt) aðeins með kassagítar og fartölvu sér til stuðnings, en í stað þess að nota fartölvuna í undirspil þá var hann sífellt að gera einhverja skrítna hluti við sándið í gegnum tölvuna, tók upp og lúppaði dót í beinni, og gerði allskonar kúnstir. Og tónlistin var góð. Þetta var sennilega í eina skiptið sem ég hef farið á tónleika hjá einum gæja og fartölvunni sinni þar sem performansinn var ekki drepleiðinlegur, heldur skemmtilegur og grípandi í gegn.
Í gegnum árin hefur tónlist Mugi þróast frá fartölvufiktinu og yfir í hefðbundnari hljóðfæraskipan, en alltaf hefur hann haldið sérstöðunni, hann nær alltaf að kreista eitthvað júník sánd út úr því sem hann hefur milli handanna.

Á mánudaginn sendi Mugison frá sér nýja plötu, er nefnist Ítrekun [plötunni hefur seinkað, nú er reiknað með henni í fyrstu vikunni í nóvember]. Á plötunni eru lög sem hafa komið út með honum áður, en hafa breyst mikið á tónleikaferðalögum hans og hljómsveitarinnar. Það er skemmtilegt að fylgjast með hvernig lögin hafa breyst, klippt og skorin blús-naumhyggja lagsins Murr Murr hefur t.d. stökkbreyst yfir í organdi blúsmonster.

Ég valdi lagið Poke A Pal af þessari plötu til að deila með ykkur.

Endilega kíkið útí búð eða á netið og skellið ykkur á eintak.

» Mugison - Poke A Pal (live)

Ummæli

Bjarni sagði…
núna er 28okt. miðvikudagur.. og hvar er þessi plata! hún er hvergi að finna...
Sveinbjorn sagði…
Ég skal ekki segja. Dagsetninguna fann ég í einhverri frétt, á Bæjarins bestu, held ég.

Vinsælar færslur