Anti-Laugardagsmúsík (en þó ekki)
Um daginn var ég að horfa á heimildarmynd um Tony Wilson heitinn. Þar var tónlist eftir Durutti Column, sem voru undir samningi hjá Factory, óspart notuð. Ég hafði alltaf vitað af því bandi, en ekki kynnt mér það neitt sérstaklega. Ég fann eitt gleymt lag á itunes hjá mér og féll alveg kylliflatur. Ég hef lítið gert annað í dag en að hlusta á þetta kurteisis-póst-punk.
Durutti Column var aðallega hinn rolulegi Vini Reilly að glamra á skrækan, reverb-drifinn gítar yfir rúllandi elektrótrommur. Martin Hannett pródúseraði fyrstu plötuna, sem kom út í sandpappírsumslagi. Gasalega póstmódernískt. Þess má til gamans geta að nokkrir meðlimir úr Durutti Column eru núna í Simply Red.
Það er augljóst að lið einsog Lindstrom, Prince Thomas og Studio eru undir miklum áhrifum frá Durutti Column, og því ættu þeir sem hafa gaman af þeim fyrrnefndu að tékka á þeim síðastnefndu, hafi þeir ekki gert svo nú þegar. Mjög náðugt á sólríkum haustdegi.
Durutti Column - 'Madeleine' mp3
Durutti Column - 'Sketch For Summer' mp3
Durutti Column - 'The Sea Wall' mp3
Ummæli