Fleetwood Mac og Bob Welch tímabilið

Flestir þekkja Fleetwood Mac sem poppsveitina sem stóð af sér fellibyl af kóki og sambandsslitum og gaf út ofur-mega-súper plötuna 'Rumours'. Færri hafa skoðað upphafsárin, þegar Peter Green leiddi bandið í blúsrokki og sækedelíu. Sárafáir hafa aftur á móti kynnt sér tímabilið mitt á milli, þegar sveitin prófaði sig áfram í mismunandi stílum og fann sig loksins í einhverskonar fönk-folk-djass gír. Gæjinn sem leiddi Fleetwood Mac á þessum tíma var Bob Welch.


Fleetwood Mac á millibilsárunum. Frá vinstri: Bob Welch,
Christine McVie, John Mcvie, Mick Fleetwood og einhver vitleysingur.


Fleetwood Mac hóf lífsgönguna sem hin argasta blúsrokk grúppa. Sveittir og lafmóðir hömruðu þeir út fimmtán mínútna prog-blús þangað til aðal gítarhetjurnar þeirra hurfu. Jeremy Spencer hvarf í sértrúarsöfnuðinn Children of God og Peter Green tapaði glórunni og eyddi næstu árum í að borða kúk í svampklæddri dýflissu. Eða eitthvað.

Californíubúinn Bob Welch var ráðinn sem aðal söngvari og gítarleikari sveitarinnar og mótaði hinar ágætu plötur Bare Trees ('72), Penguin ('73), Mystery to Me ('73) og Heroes are Hard to Find ('74). Þessi flinki lagasmiður var einkenni FM með sínum lipra gítarleik og seiðandi, hásu röddu.

Þrátt fyrir að árin sem Welch var með í bandinu voru mjög frjósöm tónlistarlega séð, þá var lífið hjá þeim hálf glatað. McVie hjónin skildu, allir voru fullir, nýjir meðlimir komu og fóru og plöturnar seldust illa. Svo kom einn fáránlegasti atburður rokksögunnar. Umboðsmaður FM, Clifford Davis, taldi sig eiga nafnið á bandinu og setti á laggirnar gerfi-Fleetwood Mac með einhverju fólki útí bæ og sendi þau á túr.

Þessi Feik-wood Mac grúppa lifði ekki lengi, en málaferlin reyndust bandinu erfið. Mikil barátta var háð um hver ætti nafnið á Fleetwood Mac (sem er auðvitað nefnd eftir Mick Fleetwood og John McVie) og entust málaferlin í heilt ár. Welch og co. eyddu þessu ári heima að borða skyndinúðlur og þamba koníak í staðinn fyrir að búa til tónlist.

Eftir þetta rugl fékk Welch bretana til að flytja búferlum til LA, sem og þau gerðu. Þau skrifuðu undir hjá Warner Brothers og bjuggu til 'Heroes are Hard to Find'. Enn og aftur var platan góð, en hlustendahópurinn ekki til staðar. Þau tóku einn túr til, en stöðug togstreitan og ruglið í hinum meðlimunum var of mikið fyrir Welch. Hann sagði skilið við Fleetwood Mac 1975 eftir áralangar kvalir, vonbrigði og lögfræðivesen. Eftir sitja nokkrar frábærar plötur sem allir unnendur framsækinnar popptónlistar ættu að kynna sér.

Sama ár voru tveir ungir lagasmiðir (og elskendur), Lindsey Buckingham og Stevie Nicks ráðin sem nýjir meðlimir. Söguna eftir það þarf varla að endurtaka hér. Tugmilljóna sala, ótrúleg frægð, enn ótrúlegri fíkniefnaneysla og einhver bestu popplög sem nokkurn tíma hafa heyrst.

Mesta pínan er sú að Bob Welch var boðið að vera með í þessari nýju mannaskipan. Hann nennti ekki meiri vitleysu, afþakkaði pent og missti þar með af velgengninni sem hann átti skilið. Hann átti einhverja smávægilega hittara í eitís, bæði sóló og með bandinu Paris, en er flestum gleymdur í dag.


Hér er knappt persónulegt best-off með Bob Welch og Fleetwood Mac:

'Ghost' er nokkuð dæmigert fyrir lagasmíðar í örlí seventís. Þjóðlagalegt, breezy og með svolitlum Lukkuláka keim.
Fleetwood Mac - 'The Ghost' mp3

Það er svolítil strandar-kalipsó stemning yfir 'Forever' sem var á plötunni 'Mystery to Me'. Æðisleg bassalína.
Fleetwood Mac - 'Forever' mp3

'Hypnotized' er réttilega talið besta lagið sem Welch samdi. Stónd, ævintýralegt og alveg hreint gasalega smekklegt.
Fleetwood Mac - 'Hypnotized' mp3

'Bermuda Triangle' byrjar á hádrama og skellur síðan í diskófíling. Textinn er soldið fyndinn, kannski viljandi. Af plötunni 'Heroes Are Hard To Find'.
Fleetwood Mac - 'Bermuda Triangle' mp3

Að skilnaði er hér draumkennt, instrumental lag af 'Heroes are Hard to Find'.
Fleetwood Mac - 'Safe Harbour' mp3

Ummæli

halli sagði…
Almennileg færsla Bjölli!

Takk!
Bobby sagði…
Nei þakka þér.

Vinsælar færslur