Mæ Öm-Barella

Söngkonan Rihanna var að slá breskt met sem Wet Wet Wet höfðu áður haldið með þvölum ballöðufingrum: Hún hefur verið á toppi breska vinsældarlistans í réttar tíu vikur. Þegar ég las þessar fréttir fannst mér tími til kominn að hlusta á þetta lag í fyrsta skipti, sem ég og gerði á myspacinu hennar núna rétt áðan. Þar sem ég hlusta hvorki á útvarp eða M- og PoppTV hef ég hingað til verið algerlega uppá öræfum með þetta lag, sem sjálfsagt gervöll heimsbyggðin er komin með sjúklegt leið á.

Lagið er með grípandi laglínu og þessi snotra dúlla er með nokkuð minnistæða rödd með mátulegu geitar-jóðli í lok hverrar línu. Ekkert spes, en ekkert hryllilegt heldur. Bítið er ekkert nema la-la módern Arrenbí. Það sem ég hef aðallega út á lagið að setja er að aulinn hann Jay-Z er í forgrunni. Ég fyrirlít þann gæja og alla þá sem kalla hann JayHova einsog hann sé einhver rímnajesú. Almáttugur, röddin hans er einsog eggvopn í eyrun á mér. Kóbraslanga vafin um ístaðið. Þessi hæfileikalausi trúður á smjörsýru hefur ekki gert gott lag síðan 'Ain't No Nigga' og það var árið 1996. Hananú.

Nú þegar ég hef komið þessu frá mér, vil ég koma mér að efni þessarar færslu: Leitin að sumarsmellinum 2007, sem ég tel að 'Umbrella' sé ekki.

Á hverju ári virðist koma út hiphop/RnB lag sem er svo fárálega vinsælt/grípandi að bókstaflega ALLIR geta verið sammála um ágæti þess. Ég man þegar 'Hey Ya' flóðbylgjan stóð sem hæst. Þá var mögulegt að yfirgefa Kaffibarinn þegar hippsterarnir hoppuðu uppá borð við "one-two-three!...", ganga niður Laugaveginn meðfram bíl fullum af Creed-krádi sem var að spila fyrsta erindið og koma svo inn á Prikið til að sjá skopparana syngja með viðlaginu. 100% nýting á hlustendahópnum. Meira að segja ÞÚ elskaðir það lag fyrstu tvær vikurnar.

Ég tel að þessi sumarsmellur sé ekki ennþá kominn í ár. 'Umbrella' er svo sannarlega nógu vinsælt, en það er ekki nógu grípandi fyrir alla hlustendahópana til að tileinka sér. Það vantar þetta "Heeeeeeeeyyjjjaaaaaaa" eða "Craaaaaaazzzaaaayyyy" til að öskra með bjórsletturnar á jakkanum.

Það hafa komið nokkrir kandidatar í ár, en bara of snemma. Til dæmis kom "My Love" með Justin Timberlake út í vetur og er því ekki keppnishæft. Við þurfum sumarsmell til að fullkomna bókhaldið gott fólk!

Allar uppástungur / lagfæringar á eftirfarandi lista eru vel þegnar.

2007:
'Umbrella' ??
2006:
Gnarls Barkley - 'Crazy'
2005:
Kanye West - 'Gold Digger'
2004:
Usher - 'Yeah' ??
2003:
Outkast - 'Hey Ya'
2002:
50 Cent - 'In Da Club'
2001:
'Bootylicious' með Destiny's Child??
2000:
Hugmyndir?

Auðvitað eru örlög hiphop sumarsmellsins að vera fyrirlitinn og hataður um alla eilífð þegar við höfum heyrt hann sjötíu sinnum of oft. Mín spurning er þá öllu heldur þessi:

Hvaða lag sem kemur út í sumar verðskuldar sameiginlegt hatur okkar allra í haust?

Ummæli

Laufey sagði…
hey hvað með crazy in love með beyonce hvenær var það vinsælt.það var crazy vinsælt
Pétur Blöndal sagði…
2007: er Amy Winehouse ekki soldið að bíta í hælana á Rhiönnu?(Platan hennar kom þó út í fyrra)
og

2000:
Lucy Pearl - Dance Tonight eða Don´t Mess With My Man
eða Sisqo - Thong Song
Laufey sagði…
roots: "im gonna push my seed tonite its gonna work because im pushin it right,lalala my babifirl tonite im gonna name it rock and roll"
????
Bobby sagði…
Já heyrðu Lubba, The Seed var svaka. Hvenær var það, 2002?

Vinsælar færslur