Eyðimerkurjanúar

Það er auðvitað alveg bullandi andleg þynnka í gangi og þjóðin leitar hjálpar. Ég hef verið duglegur að stinga elektrónískri tónlist hingað undanfarið en nú tel ég að það sé tími á soldið kántrí. Hér er hvorki um stefnubreytingu né áramótaheit að ræða, því allir vita að mitt heit er að aka á sláttuvél þvert yfir Rússland.Gram Parsons er án vafa einn áhrifamesti tónlistarmaður sem þú hefur aldrei heyrt um. Hann kom kántrí/rokk bylgjunni af stað í sixtís með International Submarine Band og Flying Burrito Bros. Hann breytti Byrds og Rolling Stones í kántríhljómsveitir, var ábyrgur fyrir stofnun The Eagles og kom Emmylou Harris á framfæri. Þrátt fyrir að hafa varla selt tíu plötur á ferlinum lifði Gram einsog Jesú, enda af moldríkri ætt appelsínubænda í Flórída. Það var ekki óþekkt að hann mætti á limósínu þegar bandið var að koma fram fyrir hálftómu bingókvöldi á Ellefunni eða eitthvað álíka.

Það þarf varla að taka það fram að hann drap sig á dópi og sukki, einsog virðist vera raunin með 90% allra költ hetja í músík. Það var síðan soldill skandall þegar umboðsmaður Grams rændi volgu líki hans úr kistunni, brunaði með það í eyðimörkina með lögguna á hælunum og brenndi það við dræmar undirtektir Parsons fjölskyldunnar. En draugur Gram Parsons lifir auðvitað við mikla hylli og aðdáun. Þömbum viskí og förum svo í andaglas.

Flying Burrito Bros. - 'Sin City' mp3
Flying Burrito Bros. - 'Hot Burrito #2' mp3

Og smá bónus-
Gram Parsons - 'November Nights' mp3
Gram einn að lufsast með kasettutæki. Aðeins meira folk en kántrí, enda tekið upp '65.

Ummæli

Vinsælar færslur