Gestablogg: Nýtt lag frá Sprengjuhöllinni og tónleikar á morgun (föstudag) með Sin Fang Bous

Hér eftir fer gestafærsla frá Jóni Trausta, umboðsmanni Sprengjuhallarinnar.
.

- - - - - -
Í þessari bloggfærslu:
  1. Nýtt lag með Sprengjuhöllinni, "Deus, Bóas og/eða Kjarninn
  2. Tónleikar á Grand Rokk föstudaginn 17 apríl (á morgun). Fram koma Sin Fang Bous og Sprengjuhöllin
Sprengjuhöllin og Sin Fang Bous á tónleikum n.k föstudagskvöld
Hljómsveitirnar Sprengjuhöllin og Sin Fang Bous koma fram á tónleikum á Grand Rokk næstkomandi föstudagskvöld. Tónleikarnir eru haldnir undir merkjum Grapevine og Gogoyoko. Gamanið hefst kl. 22:00 og aðgangseyrir er 1.000,- kr.

Sprengjuhöllin
Sprengjuhöllin er nýkomin úr ferðalagi um Norður-Ameríku þar sem hún vakti nokkra athygli fyrir grípandi lög og líflega framkomu. Sem dæmi má nefna að vefútgáfa Time Out valdi sveitina þá bestu á fyrsta degi South by Southwest tónleikahátíðarinnar í Texas. Það er liðið hálft ár frá því að Sprengjuhöllin kom fram á tónleikum sem þessum á Íslandi og því hlakka drengirnir mjög til að endurnýja kynni sín við íslenska tónleikagesti. Það er mat fagmanna að Höllin hafi bætt sig mjög sem tónleikasveit og það verður gaman að sjá og heyra hvort það standist.

Sin Fang Bous
Sin Fang Bous er eins konar sólóverkefni Sindra Más Sigfússonar úr hljómsveitinni Seabear. Platan Clangour kom út seint á síðasta ári og spurðist gríðarlega vel út. Hún birtist á ótalmörgum árslistum þegar árið var gert upp og kleif í kjölfarið metsölulistana. Þá hefur lagið „Clangour & Flutes“ ómað nokkuð í útvarpi að undanförnu. Á sviði fær Sindri Már til liðs við sig ýmsa valinkunna tónlistarmenn úr íslenska poppheiminum og lætur fartölvuna og undirleik af bandi lönd og leið. Góður rómur var gerður að tónleikum Sin Fang Bous á Aldrei fór ég suður um páskahelgina.Nýtt lag frá Sprengjuhöllinni // Deus, Bóas og/eða kjarninn
Auk þess setur Sprengjuhöllin nýtt lag í spilun í dag. Lagið nefnist „Deus, Bóas og/eða kjarninn“ og er fjórða „smáskífan“ af hljómplötunni Bestu kveðjur. Áður hafa lög eins og „Byrjum upp á nýtt“ og „Á Skólavörðuholti“ notið nokkurra vinsælda.

„Deus, Bóas...“ er diskó-ballaða sem fer vel með hækkandi sól. Lagið er heldur dansvænna en lög Sprengjuhallarinnar til þessa og ætti að geta sómt sér jafnvel innan um dynjandi dansmúsík plötusnúðanna í bænum eins og í ómþýðari dagskrá útvarpsstöðvanna.

Texti lagsins er uppfullur af innrími og einkennilegum orðum og fjallar í sem stystu máli um það hvernig mannskepnan er gjörn á að sækja í trúarbrögð, pólitíska hugmyndafræði, heimspeki og dulspeki í leit að æðri tilgangi. Þrátt fyrir það heldur lífið áfram og fegurð þess og heimsins sem það á sér stað í er óneitanleg. Eftir situr spurningin um hvort leitin að tilgangi standi í vegi fyrir því að lífsins sé notið til fullnustu. Já maður bara spyr sig.

Stutt:Lag:
  1. Nýtt lag frá Sprengjuhöllinni í spilun á morgun.
  2. Lagið heitir Deus, Bóas og/eða kjarninn

Tónleikar:
  1. Sprengjuhöllin og Sin Fang Bous
  2. Grand Rokk
  3. Föstudagurinn 17. Apríl 2009
  4. Húsið opnar kl 22:00 – tónleikar hefjast kl. 22:30
  5. Miðaverð: 1000 ISK


Frekari upplýsingar veita:
Jón Trausti Sigurðarson, umboðsmaður

- - - - - - - - - - - - - - - - - -

Sækið lagið hér:
» Sprengjuhöllin - Deus, Bóas, og/eða kjarninn

Ummæli

krilli sagði…
Frábær framsetning, góð Excel-vinna.

Vinsælar færslur