Fyrsta uppáhalds lagið mitt

Ég er að uppgötva tónlist.is núna. Margir vina minna sem eru tónlistarmenn eru ekkert voðalega hrifnir af þessu batteríi, þar sem að þeir eiga það til að selja tónlist að tónlistarmönnum óforspurðum, en hvað varðar gamla íslenska tónlist er þessi síða alger gullnáma. Á fyrstu árum síðunar virkaði hún bara fyrir windows, en nú eru þau komin með glimrandi fína mp3 fæla í 192k og aac fæla í 320k, þannig að gæði skránna sem þau bjóða upp á eru alveg frábær orðið.

Í gramsi mínu fann ég plötuna Deio með Ladda. Ég átti hana á kópíeraðri spólu þegar ég var lítill útí svíþjóð, og hlustaði á hana ótt og títt. Sérstaklega var ég hrifinn af Búkolla, sem er mjög skrítið nýbylgjureggí lag fyrir börn. Mig grunar að þetta hafi verið eitt fyrsta uppáhalds lagið mitt, þetta er allavega fyrsta lagið sem ég man eftir að hafa hlustað á aftur og aftur. Mér fannst hljóðheimur lagsins svo dimmur og skrýtinn, og hrynjandinn svo furðulegur, að ég gat ekki fengið nóg af laginu, fimm ára gamall í svíþjóð.

Laddi - Búkolla mp3 - [ég breytti laginu yfir í skítagæði í þeirri von að Sena kæri mig ekki, þið getið fengið það í fullum gæðum á tónlist.is]

» kaupa plötu hér (kostar skitnar 899 kr)

Ummæli

Vinsælar færslur